logo

Fréttabréf Stjórnarskrárfélagsins – Nóvember 2014

Stjórnarskrárfélagið gengur í endurnýjun lífdaga

Aðalfundur Stjórnarskrárfélagsins var haldinn sunnudaginn 16. mars sl. og fram haldið sunnudaginn 28. september. Auk hefðbundinna aðalfundarefna lá fyrir tillaga að sameiningu félagsins og SaNS, Samtaka um Nýja Stjórnarskrá. Sameining félagana var samþykkt einróma og ákveðið að notast áfram við nafn Stjórnarskrárfélagsins. Samþykktar voru breytingar á lögum félagsins, bæði hvað varðar markmið og tilgang þess. Einnig var fjölgað í stjórn félagsins, úr fimm manns í sjö og fjórir varamenn kjörnir í stað tveggja.

Frambjóðendur til nýrrar stjórnar voru sjálfkjörnir, svo og varamenn í stjórn.

Frá fyrsta stjórnarfundi nýrrar stjórnar

Frá fyrsta stjórnarfundi nýrrar stjórnar

Segja má að félagið hafi gengið í endurnýjun lífdaga, bæði með breyttum áherslum og nýju fólki í stjórn. Áður var áherslan lögð á hlutleysi og að þjóðin myndi sjálf semja sína eigin stjórnarskrá. Að margra mati var þeim áfanga náð með tillögum Stjórnlagaráðs sem hlutu afgerandi stuðning kjósenda þann 20. október 2012. Því er markmið félagsins nú að grundvallarréttur þjóðarinnar sem stjórnarskrárgjafa sé virtur þannig að nýja stjórnarskráin taki gildi sem fyrst. Nýr formaður félagsins, Ástrós Signýjardóttir, var í Kastljósviðtali þann 20. okt. sl.

Einnig voru nokkrir aðrir stjórnarmenn í útvarpsviðtölum nýlega af því tilefni að 2 ár eru liðin frá þjóðaratkvæðagreiðslunni um nýju stjórnarskrána.
RÚV 22. október: http://www.ruv.is/frett/brynt-ad-endurskoda-stjornarskrana
Útvarp Saga 29. okt. (hefst á 34 mín.): http://www.utvarpsaga.is/images/eldri/efni/morgun291014a.mp3

Aðgengilegt efni frá fyrri fundum

Stjórnarskrárfélagið var stofnað snemma árs 2011 og hefur staðið fyrir fjölmörgum viðburðum og opnum fundum um málefni stjórnarskrárinnar. Töluvert af upptökum frá þessum fundum eru aðgengilegar á vefnum, sér í lagi frá Iðnó árið 2012 þar sem hver fundur var tileinkaður ákveðnu umfjöllunarefni. Einnig framleiddi félagið kosningamyndband fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna 2012 og er óhætt að segja að það hafi þjónað tilgangi sínum.

Á aðalfundinum 16. mars flutti Geir Guðmundsson skýrslu stjórnar þar sem farið var yfir helstu viðfangsefni félagsins sl. 2-3 ár. Hljóðupptaka af samantekt hans er aðgengileg hér.

Aftast í þessu fréttablaði eru tenglar á upptökur frá nokkrum helstu fundum félagsins.

Félagsstarfið framundan

Félagsmenn geta allir lagt sitt af mörkum og talað fyrir kostum og mikilvægi nýju stjórnarskrárinnar. Æskilegt er að tengja þau pólitísku hitamál sem eru í umræðunni hverju sinni við ákveðnar greinar stjórnarskrárinnar og undirstrika gildi hennar í tengslum við ákveðin úrlausnarefni. Einnig þarf að gera þingmönnum ljóst að landsmenn munu ekki láta hafa af sér nýju stjórnarskrána og hvetja þá til dáða. Nota má vefsíðuna 20.oktober.is í þeim tilgangi.

Stjórn félagsins hyggst útbúa aðgerðaráætlun til að þoka málum í rétta átt. Allar góðar hugmyndir eru vel þegnar og verður boðað til félagsfundar innan tíðar þar sem tilvalið væri að ræða ýmsa möguleika. Einnig mætti gjarnan senda tillögur á póstfang félagsins, stjornarskrarfelagid@gmail.com.

 

Mótmælafundir á Austurvelli

10532731_301012973437577_2497735365899998480_o

Frá mótmælum 3. nóvember

Stjórnarskrárfélagið hvetur fólk til að halda á lofti kröfunni um nýja stjórnarskrá við sem flest tækifæri. Nýja stjórnarskráin inniheldur auðlindaákvæði sem tryggir þjóðinni réttmætan arð af auðlindum sínum. Hún stendur vörð um náttúru og umhverfi, tryggir aðgang að upplýsingum og minnkar hættu á spillingu. Einnig felast í henni mikilvægar breytingar á valdajafnvægi og kosningakerfi þannig að atkvæðavægi verði jafnað, persónukjör aukið og opnað fyrir þjóðaratkvæðagreiðslur að frumkvæði kjósenda. Það er því ærin ástæða til að þrýsta á um gildistöku nýju stjórnarskrárinnar, þó ekki sé nema til að tryggja eignarétt þjóðarinnar á auðlindum sínum og eðlilegt gjald fyrir nýtingu. Féð sem myndi innheimtast í ríkissjóð fyrir nýtingu auðlinda mætti nýta til að bæta heilbrigðiskerfið, menntakerfið, velferðarþjónustu, vegakerfi og aðra innviði. Mætum með skilti og gerum fólki ljóst hvað stjórnarskráin skiptir samfélagið miklu máli.

 

Fjármál félagsins

Sem stendur hefur Stjórnarskrárfélagið enga tekjustofna og enga styrktaraðila. Að vísu eru útgjöld lítil þar sem öll vinna er unnin í sjálfboðavinnu og staða bankareiknings í plús. Hins vegar takmarkar þetta möguleika félagsins á að láta til sín taka og því eru félagsmenn góðfúslega beðnir um að láta eitthvað af hendi rakna. Mælst er til þess að félagsmenn borgi félagsgjald, valfrjálsa upphæð, eða styrki félagið með því að millifæra inn á eftirfarandi reikning:

Reiknisnúmer: 513-26-006296.
Kt. 590810-2230

 

Nýja stjórnarskráin

Það er ástæða til að glugga annað slagið í nýju stjórnarskrána og velta fyrir sér orsökum þess að valdhafar standa þrjóskir gegn gildistöku hennar. Ástæðurnar eru eflaust margar en ein sú augljósasta er að völd stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka munu minnka. Valdhafar vilja síst af öllu minnka eigin völd.

Kjósendur voru spurðir um nýju stjórnarskrána í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október – Svör þeirra voru skýr:

  • Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá? – Já, 67%
  • Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign? – Já 83%
  • Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi? – Já 57%
  • Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er? – Já 78%
  • Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt? – Já 67%
  • Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu? – Já 73%

Tillögurnar eru aðgengilegar á síðu Stjórnlagaráðs ásamt miklu öðru ítarefni. Hins vegar er auðveldara að átta sig á breytingunum með því að lesa bækling Lagastofnunar HÍ, bls. 17-47, þar sem gömlu og nýju stjórnarskránni er stillt upp á auðlæsilegan hátt, hlið við hlið.

Alþingi hafði tillögurnar til ítarlegrar meðferðar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og á grundvelli umsagna voru gerðar nokkrar minni háttar breytingar á tillögunum, m.a. með hliðsjón af skýrslu frá Feneyjanefndinni. Endanlegt frumvarp til stjórnskipunarlaga sem hefði átt að fá framgang á Alþingi í lok mars 2013 kom hins vegar aldrei til atkvæða og í kjölfarið varð stjórnarskráin ekki mál málanna í síðustu alþingiskosningum. Lokagerð frumvarpsins er að finna hér.

 

 Myndbönd frá fundum

Fundur um kvótakerfið og fiskveiðiauðlindina, 13. mars 2012
Frummælendur: Friðrik Friðriksson, lögfræðingur LÍÚ, Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landsambands smábátaeigenda, Ólína Þorvarðardóttir, alþingismaður, Sigurður Jóhannesson, hagfræðingur og Kristinn H. Gunnarsson.

 

Fundur um kosningakerfið, 3. maí 2012
Frummælendur: Ari Teitsson, bóndi, Eygló Harðardóttir, alþingismaður, Björn Guðbrandur Jónsson, umhverfisfræðingur, Stefanía Óskarsdóttir, stjórnmálafræðingur og Ómar Ragnarsson, fréttamaður.

 

Fundur um náttúru og auðlindir, 15. maí 2012
Frummælendur: Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður Landverndar, Kristinn Einarsson, yfirverkfræðingur á Orkustofnun, Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra og Sigmundur Einarsson, jarðfræðingur.

 

Borgarafundur með öllum forsetaframbjóðendum, 30. maí 2012

 

Fundur um beint lýðræði, 15. september 2012
Frummælendur: Birgitta Jónsdóttir, alþingismaður, Ólafur Þ. Harðarson, stjórnmálafræðingur, Styrmir Gunnarsson, fyrrv. ritstjóri og Sólveig Alda Halldórsdóttir frá Lýðræðisfélaginu Öldu.

 

Fundur um stjórnmálaspillingu, 19. september 2012
Frummælendur: Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður BHM, Ingi Freyr Vilhjálmsson, blaðamaður og fréttastjóri DV, Margrét Tryggvadóttir, alþingismaður, Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, stjórnsýslufræðingur og Þorvaldur Gylfason, hagfræðingur.

 

Fundur um þjóðkirkjuákvæði, 10. október 2012
Frummælendur: Sr. Agnes Sigurðardóttir, biskup, Valgarður Guðjónsson, hugbúnaðarsérfræðingur, Dögg Harðardóttir, stjórnlagaráðsmaður, Hjalti Hugason, guðfræðiprófessor og Sigurður Hólm Gunnarsson f.h. Siðmenntar

 Lokafundur, “Von um betra samfélag”, 17. október 2012
Frummælendur: Árni Stefán Árnason, lögfræðingur, Guðrún Pétursdóttir, fyrrv. formaður stjórnlaganefndar, Freyja Haraldsdóttir, Ragnheiður Gyða Jónsdóttir, ritstjóri, Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur, Elvira Méndez Pinedo og Svanur Kristjánsson, stjórnmálafræðingur.

 

Frá útifundum á Ingólfstorgi 2013, ásamt Röddum fólksins
Inga Sigrún Atladóttir, 9. mars 2013, Valgerður Bjarnadóttir, 16. mars 2013, Gunnar Hersveinn, 16. mars 2013, Lýður Árnason, 23 mars 2013, Margrét Tryggvadóttir, 23. mars 2013 og Sigríður Ólafsdóttir, 23. mars 2013.

 

Annað efni
Andri Snær Magnason, Skúli Magnússon og Kristín Linda Arnardóttir