logo

Fréttatilkynning

Stjórnarskrárfélagið hefur sent Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna bréf til að vekja athygli á vanefndum Alþingis í stjórnarskrármálinu. Málið varðar Mannréttindanefndina. Nefndin sendi frá sér álit 2007 með bindandi tilmælum til ríkisstjórnarinnar um að breyta fiskveiðistjórninni til að girða fyrir mismunun og um að greiða bætur sjómönnunum tveim, sem höfðuðu og unnu málið gegn íslenska ríkinu, þeim Erlingi Sveini Haraldssyni og Erni Snævari Sveinssyni. Mannréttindanefndin lét málið niður falla með bréfi 2012 með vísan til þess að, að ríkisstjórnin hefði í bréfi 2009 gefið fyrirheit um nýja stjórnarskrá með ákvæði um auðlindir í þjóðareigu.

Stjórnarskrárfélagið minnir á að ný stjórnarskrá var samþykkt með 67% atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012 og ákvæði um auðlindir í þjóðareigu sérstaklega með 83% atkvæða. Í ljósi vanefnda Alþingis í stjórnarskrármálinu hvetur Stjórnarskrárfélagið Mannréttindanefndina til að taka málið upp aftur og ítreka fyrri bindandi tilmæli sín til ríkisstjórnarinnar um að breyta fiskveiðistjórninni.

 

Fréttatilkynning Stjórnarskrárfélagsins með bréfi til Mannréttindanefndar SÞ