logo

Ályktun frá Stjórnarskrárfélaginu

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, kveðst vilja að þjóðaratkvæðagreiðsla um breytingar á stjórnarskrá fari fram samhliða forsetakosningunum á næsta ári. Að mati Bjarna eru forsendur fyrir því að bæta við ákvæðum um umhverfis- og auðlindamál, þjóðaratkvæðagreiðslur og takmarkað framsal valdheimilda.

Um leið og Stjórnarskrárfélagið fagnar allri umræðu um stjórnarskrána vill félagið minna á að þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá fór fram þann 20. október 2012. Niðurstaða þeirrar atkvæðagreiðslu var skýr og afdráttarlaus: Yfirgnæfandi meirihluti kjósenda vill að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Slíkt frumvarp, fullbúið af hendi Alþingis, lá fyrir vorið 2013.

Þar sem umrætt frumvarp fól í sér nýja stjórnarskrá, en ekki viðbætur við þá gömlu, er ljóst að hugmyndir Bjarna Benediktssonar um framvindu þessa máls eru í andstöðu við vilja meirihluta kjósenda. Ef það er hins vegar einbeittur vilji þingsins að einskorða sig við þessi tilteknu ákvæði, þá er þau öll að finna í þeirri stjórnarskrá sem þjóðin lýsti yfirgnæfandi stuðningi við í umræddri þjóðaratkvæðagreiðslu. Engin ástæða er því til að karpa um orðalag og útfærslu.

Þess vegna hvetur Stjórnarskrárfélagið landsmenn til að hafna skemmri skírn Bjarna Benediktssonar, en lýsa frekar eftir því að Alþingi virði niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012 og lögfesti þá nýju stjórnarskrá sem kjósendur veittu brautargengi.

F. h. Stjórnarskrárfélagsins
Sigurður H. Sigurðsson
sími 821-8272

Ályktun frá Stjórnarskrárfélaginu