logo

Lög Stjórnarskrárfélagsins

1.gr.

Félagið heitir Stjórnarskrárfélagið.

2. gr.

Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.

3. gr. Markmið

Markmið félagsins er að grundvallarréttur þjóðarinnar sem stjórnarskrárgjafa sé virtur.

4. gr. Tilgangur

Tilgangur félagsins er að vekja umræðu um stjórnarskrármál og fá sem flesta til að sækja og verja rétt þjóðarinnar sem stjórnarskrárgjafa.

5. gr. Félagsaðild

Félagið stendur öllum einstaklingum opið sem vilja vinna að markmiðum þess.

Hvorki félög, fyrirtæki, hagsmunasamtök né stjórnmálaflokkar geta sem lögaðilar gengið í félagið.

Félagið skal halda skrá yfir félagsmenn sem er óaðgengileg öðrum en félagsmönnum.

Ef félagsmaður vinnur gegn markmiðum félagsins getur meirihluti félagsfundar samþykkt að vísa viðkomandi úr félaginu.

6. gr. Stjórn

Stjórn félagsins skal skipuð sjö félagsmönnum, formanni, ritara sem jafnframt er varaformaður, gjaldkera og fjórum meðstjórnendum. Stjórn skiptir með sér verkum.

Stjórn skal kjósa á aðalfundi. Jafnframt skal kjósa fjóra varamenn í stjórn á aðalfundi.

Varamenn skal boða á stjórnarfundi. Stjórn skal leitast við að halda félagsfundi eða aðra viðburði mánaðarlega. Stjórnarfundir skulu vera opnir.

Stjórnin getur stofnað bankareikninga í nafni félagsins til að halda utan um framlög til félagsins og útgjöld. Stjórnin skal bera öll meiriháttar útgjöld undir félagsfund eða á umræðuvettvangi félagsins á netinu til umræðu fram að næsta félagsfundi.

Stjórn er heimilt með samþykki meirihluta félagsfundar að efna til almennrar fjáröflunar í nafni félagsins. Firmaritun félagsins er í höndum meiri hluta stjórnar.

7. gr.

Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Aðalfund skal halda minnst einu sinni á ári, eigi síðar en 1. desember. Aðalfund skal boða með minnst 2 vikna fyrirvara með fundarboði í tölvupósti til skráðra félagsmanna og með auglýsingu á vef félagsins. Á aðalfundi gerir stjórnin grein fyrir störfum félagsins og reikningum þess.

Tillögur til breytinga á lögum félagsins skulu berast stjórn minnst 2 vikum fyrir aðalfund og kynntar félagsmönnum í tölvupósti og á vef, eða póstlista félagsins fyrir aðalfund.

Aðalfundur skal opinn öllum, en mál, tillögu- og atkvæðisrétt hafa eingöngu félagsmenn.

8. gr.

Vinna fyrir félagið er í sjálfboðavinnu. Stjórn félagsins er þó heimilt að greiða fyrir sérfræðivinnu ef það þjónar markmiðum félagsins eða er nauðsynlegt fyrir rekstur þess.

Félagsmönnum skal boðið að greiða ákveðið árgjald til félagsins eða upphæð að eigin vali.

Aðalfundur getur breytt þessu ákvæði með einföldum meirihluta og tekið upp árgjald, sem skal stillt í hóf.

9. gr.

Bókhald félagsins skal vera opið og skal stjórn félagsins reglulega birta fjárhagslegt yfirlit á vefnum.

Tekjuafgangi félagsins skal varið til að koma markmiðum þess í framkvæmd.

10. gr.

Ákvörðun um félagsslit er einungis hægt að taka á aðalfundi. Tillaga um slit á félaginu ásamt rökstuðningi skal kynnt í fundarboði til aðalfundar. Samþykki 70% atkvæðabærra félagsmanna á aðalfundi þarf til að slíta félaginu. Kosningarétt vegna félagsslita skulu þeir félagsmenn hafa sem skráðir hafa verið í félagið síðustu þrjá mánuði fyrir aðalfund. Komi til félagsslita renna eignir félagsins til Amnesty International á Íslandi.

Lög þessi eru samkvæmt samþykkt aðalfundar Stjórnarskrárfélagsins 26. nóvember 2017